3) Gummasögur framhald og tónverk sem GE hefur flutt vítt og breitt frá 1972-2022
Heimsóknir
233378

Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.

Sinfóníur, konsertar, kórsinfónískar bókmenntir og óperur

Ný þáttaröð, fyrsti þáttur: Elsku börn mín og aðrir. Nú hefst nýr kafli í þessari endalausu sögu minni. Við gætum kallað hann eftirlætisverk sem ég hef stjórnað um víða veröld frá 1972. Hljóðritanir mínar á þessu sviði eru allar geymdar í söfnum útvarps- og sjónvarpsstöðva, þar á meðal tugir hillumetra í Efstaleiti þar sem þessar tónleikahljóðritanir hafa legið óhreyfðar, sumar frá 1972 ásamt þúsundum hljóðrita annarra íslenskra tónlistarmanna. Mér verður hugsað til einsöngvara og einleikara okkar, sem skipta tugum, er tóku þátt í flutningi slíkra verka og svo ekki söguna meir.  Undirritaður hefur stjórnað þessum verkum í fjórum heimsálfum í hálfa öld og þau veitt ómældan unað. Þau reyna ekki síst á einsöngvara, einleikara hljómsveita, semballeikara, fyrsta selló, hljómsveitina sjálfa, stjórnanda og kór. Þakklátir tónlistarunnendur fylla hljómleikahallir. Undirritaður hefur ekki aðgang að hljóðritasafni RÚV, hefur ekki fjármagn til að leysa hljóðritin úr gíslingu þar, og verður því að notast við hljóðrit annarra stjórnenda á Youtube. Þetta er kolröng forgangsröðun tónlistarefnis á Rás 1 og í sjónvarpi, og er álíka gáfulegt eins og að hvorki útvarpa né fjalla um helstu bókmenntir okkar og láta sem þær séu óritaðar og þar með þagga niður í Agli Helgasyni og setja Kiljuna hans í kjallarann fyrir fullt og fast. Hvað segðu hæstvirtir rithöfundar þjóðarinnar þá? Og nú er svo komið að David Bowie er helsta átrúnaðargoð dagskrárgerðarmanna gömlu gufunnar og sagður heimsins mesta tónskáld. Meira síðar.