4) Bernstein (í vinnslu)

Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.

Leonard Bernstein

Reflections

Með því að smella á youtube hlekkinn hér fyrir neðan er hægt að horfa á Reflections í heild sinni.

Bernstein var utangarðsmaður

Bernstein Utangarðsmaður

Ódáinsvellir, Himnaríki og Valhöll

Bernstein og Champs Élysées ódáðinsvellir

Um hvað fjallar 9. sinfónía Beethovens

Dr. Árni og 9. sinfónía Beethovens

Bernstein og Beethoven

11. september 2022

Bernstein mentor minn, vinur og bróðir. Hver annar kom til greina ef nokkur á þessum tímamótum? // Hann hóf sig yfir meðalmennsku, tók ekki þátt í stjórnmálabraski, sagði allt sem þrúgaði samvisku hans, mætti í friðsamleg mótmæli gegn grimmu valdi allra tíða, var hundsaður af valdhöfum - af öllum nema J. F. Kennedy og Evrópu. He was despised . . . Gyðingur!

 

Leonard Bernstein - 11. mars 2022

Við hittumst á alþjóðaflugvellinum í Frankfurth á tilsettum tíma. Bernstein bauð mér að fylgja sér á VIP lounge. Vísað til borðs. Matur og síðdegisdrykkir pantaðir. Skrafað lengi. Bað mig um raddskrár. Þær afhentar. Schubert Stóra C-dúr! Hvar, hvenær og hvernig gekk?Þá umræður - og föðurlegar ábendingar // Kemur ekki dinner-píanisti og fer að spila rétt undir lok máltíðar. Ég segi, eigum við frekar að leika á píanóið? Ha. Hvað? Summertime. Móðir mín söng það, ég kann það. Við gengum til verks og fengum leyfi húspíanistans til spila, hans sagði "Of course Maestro Bernstein". Það sló þögn á VIPs er Bernstein settist hjá mér og hóf að raula George Gershwin, forvera sinn og mentor í amerískum tónsmíðum. Mér brá eiginlega líka. Hann var á heimleið og í stuði! - Meðfylgjandi lífverði LB var sagt - þú varðst ekki vitni að þessu rauli mínu. Sannast sagna voru lífverðir alltaf á sveimi umhverfis LB, jafnvel í Bloomington, þegar ég kynntist honum, þar voru þeir þrír að tölu - enda búið að myrða marga af bestu vinum hans þar á meðal John Lennon. 

Bernstein

Heiðra skaltu föður þinn og móður og aðra mentora þína. Þetta hef ég gert alla ævi og einnig á heimasíðu minni um árabil. Nú síðast hef ég ítrekað birt myndir af merkasta mentor mínum, Leonard Bernstein, sem er heimsþekktur og skráður í tónlistarsöguna til frambúðar sem hljómsveitarstjóri, pedagók, tónlistarfræðingur og tónskáld. Með þessum ljósmyndum öllum í meira en mánuð vildi ég minnast þess að þrír áratugir eru liðnir frá andláti Bernsteins 1990. Tíminn flýgur. Ég geri ekki ráð fyrir að geta minnst hans 2030 eður 2040.

Sannast sagna hef ég gert ítarlega grein á heimasíðunni fyrir öllum mentorum mínum. Birt heimildarmyndir í sjónvarpi, birt viðtöl í dagblöðum, ljósmyndir, hljóðrit og fleira og fleira; en fremur fátt sagt um Bernstein, síðasta læriföður minn, þann áttunda og merkasta. Hillur bókasafna eru ekki beinlínis að svigna undan gögnum um Þorkel, Atla Heimi og Jón Nordal. Ég hef reynt að bæta úr því. Hillur Bernsteins eru aftur troðfullar og endalausar.

Ástæðan fyrir því að ég hef lítið talað um Bernstein er sú að það sem okkur fór í milli á níunda áratug 20. aldar var tveggja manna persónulegt trúnaðartal sem ekki var ætlað til fjölmiðlabrúks – slúðurblöð eru enn spennt fyrir honum - hvar í liggur vandi minn. Hvernig fer ég að því að ræða um Bernstein án þess að rjúfa trúnað hans? Er það yfirleitt hægt? Já, sennilega ef maður fer í kringum umræðuefnið líkt og köttur í kringum heitan graut. Svona, til dæmis:

Ég tók viðtal, sem er að finna hér á heimasíðunni, við vin minn Tryggva M. Baldvinsson, forseta tónlistardeildar Listaháskóla Íslands. Um tvítugt var Tryggvi nemandi minn í hljómsveitarstjórn í Tónlistarskólanum í Reykjavík, að taka fyrstu skrefin á þeirri braut. Tryggvi var eiginlega furðu lostinn í heilt skólamisseri, því kennarinn bar ítrekað upp sömu spurninguna frá öllum hugsanlegum sjónarhornum: Hvert er hlutverk stjórnandans? Við hvað starfar hann? Þetta ætlaði aldrei að taka enda fannst Tryggva blessuðum.

Það sem Tryggvi og bekkjarfélagar hans vissu ekki og vita ekki enn, er að við Bernstein ræddum einmitt þessa spurningu og nokkrar aðrar í næstum áratug, frá sjónarmiði túbuleikarans, frá sjónarmiði konsertmeistarans, frá sjónarmiði fimmta kontrabassa og síðast en ekki síst frá sjónarmiði viðkomandi tónskálds, einleikara, einsöngvara eða kórs. Okkur Bernstein þótti þetta botnlaust umræðuefni.

Í lok þessarar skólaannar í Tónó bætti ég um betur og sagði nemendum mínum hvert væri aðalhlutverk flugstjóra! Þá féll nemendum allur ketill í eld. Hlutverk flugsstjórans, að sögn kennarans, er í sem fæstum orðum, að halda réttri flugstefnu, flughæð, flughraða og jafnvægi vélarinnar (sb ofris). En síðast en ekki síst að huga stöðugt að eldsneytinu. Þessi aðalhlutverk ber flugstjóra að rækja af stakri kostgæfni, en láta aðstoðarflugmann og flugþjóna annast allt annað.

Þota hrapaði á Heathrow í London, segir kennarinn. Allir fórust, nema flugstjórinn, sem neyddist til að viðurkenna fyrir rétti að hann hefði ekki fylgst með eldsneytismælinum síðasta spölinn (sjá bókina Airport International, 1978), enda hefði hann verið að laga salernið aftast í vélinni. Flugstjórinn missti sumsé sjónar á aðalhlutverki sínu gerðist flugvirki. Forstjórar, framkvæmdastjórar og hljómsveitarstjórar geta mikið lært af þessari sönnu og sorglegu sögu.

Að lokum þetta að auki: Aðalhlutverk hljómsveitarstjórans er ekki það að vera taktmælir. Þeir slá ekki taktinn líkt og Jón Múli orðaði það í sífellu í árdaga útsendinga frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sennilega af stakri vanþekkingu. Viðfang stjórnandans er mun víðfeðmara, líkt og bent var á hér að ofan. Gamlir djasstrommarar frá 1940 slá hins vegar taktinn, en það er annar handleggur.

Flest annað sem okkur Bernstein fór á milli, umfram það sem fram hefur komið í fyrri grein, hef ég unnið úr í fjóra áratugi í starfi mínu um víða veröld, en þau ferðalög farandsöngvans voru ekki síst Bernstein að þakka.

Kæri Bernstein, ég þakka þér handleiðsluna og að sýna mér í hugarheim þinn, en ekki síst fyrir að hvetja mig til dáða umfram alla aðra mentora mína. Nú get ég sjötugur sagt með sanni - It took Bernstein to know one.