2) Greinar um tónlist, viðtöl og sjónvarpsþættir
Heimsóknir
231586

Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.

Sturla

Sturla

 (7.12.2014)

sturla1   sturla2

 

Sturla Matthíasar og Atla Heimis (13. öldin) var frumflutt af Íslensku Hljómsveitinni, Matthíasi Johannessen (framsögn), Kristni Sigmundssyni og Karlakórnum Fóstbræðrum undir lok níunda áratugar sl. aldar. Guð einn veit var hvar sú tónleikaupptaka er í grafhvelfingu RÚV í Efstaleiti

Heyr: https://soundcloud.com/user911478883/johannessen-sveinsson-sturla

Maður tók sig því til við aldamótin 2000 og hljóðritaði þetta dularfulla verk á ný með váru fólki í Studio Riga. Fékk til liðs við sig ungan lettneskan baritón og karlaraddir lettneska útvarpskórsins. Þessir frændur voru snöggir að læra íslensku. Matthías flutti svo ljóð sitt í hljóðritun hér heima. Og þá var þetta komið - í bili amk. Þetta heitir að bjarga menningarverðmætum. Í Mbl-viðtali við undirritaðan segir skáldið: „Og við eigum enn þennan staðarhólslega kögunarhól. Þar fengum við sjón, tilfinningu, haldreipi, sjálft útsýnið. Allt sem við eigum að varðveita. Við erum farmenn þessa hugmyndaheims, og ef við fléttum fley úr táknum hans mun það duga okkur vel“. Sjá: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3306566

Sjaldan hefur hljómsveitarstjóri orðið orðlaus við að sjá nýja raddskrá - eiginlega aldrei. En undirritaður varð það af þessu tilefni. Vissi ekkert hvað tónskáldið var að fara - og varð eiginlega búa til sitt eigið „prógram“ - einskonar frásögn sem hljóðar svo - ef það kemur hlustendum 2014 á sporið. Þetta er birt með leyfi tónskáldsins; en er viðmið í besta falli:

Stjórnandinn sér fyrir sér vígvöll að morgni. Saklausir mófuglar kveða á neðri tónum; vart vaknaðir. Svo heyrast drungaleg náttúruhljóð - válegir fyrirboðar. Strengjasveitin tekur til máls, en er tregt um tungu í fyrstu og flytur stuttar hendingar sem lengjast smátt og smátt svo úr verður saga. Allt er þetta undirbúningur. Sumir málmblásarar (stríðshljóðfæri) taka undir „friðarboðskapinn“ í fyrstu - en ekki ófriðarseggir í trommudeild (stríðshljóðfæri).

Strengjasveitin þrjóskast enn við að stilla til friðar með röksemdum - er nú háværari og segir lengri sögur. Þá eykst ógn enn - því lúðrar taka að gjalla - snúast á sveif með trommum. Mófuglar skynja hættuástandið. Fljúga skrækjandi á brott.  

Eftir langa mæðu verður ekki við neitt ráðið. Heróp tveggja stríðandi fylkinga kallast á. Barið á skildi. Strengjasveitin (kannski ígildi skynseminnar) gefst loks upp og liggur úrkula vonar á dýpstu tónum.

Þá er líkt og tíminn standi í stað -  allt þagnar - og skáld stígur fram og flytur ljóð sitt. Að svo búnu hefst óumflýjanleg orusta. En ljóð skáldsins ómar enn í hugum manna þar til allt er yfirstaðið - og bræður og frændur liggja í valnum. Þá eru orð skáldsins sungin yfir hinum dauðu einni röddu við undirleik strengja.

Eitt er víst. Þetta er dramatískt verk á táknmáli frá upphafi til enda. Það er bara að skilja það rétt - að túlka það líkt og sviðsverk. Grikkir ortu svona blóðugt; harmleiki og slíkt. Óþarft að tíunda það allt hér.