2) Greinar um tónlist, viðtöl og sjónvarpsþættir

Beethoven Tónleikar (2KLST): https://www.youtube.com/watch?v=P6EdMgtOqIo

Sjá einnig: https://soundcloud.com/user911478883/tracks (dæmi um hljóðrit GE)

youtube soundcloud

 

Heimsóknir
284311

Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.

Hinn Rauði Þráður

(10.01.15)

unnamed

Mótíf er einn notadrýgsti efniðviður tónskálda um aldir. Mótíf getur verið röð örfárra tóna með eða án hrynmynsturs. Beethoven (1770-1827) kunni allt. Aðalefniviður 1. þáttar 5. sinfóníu hans byggir á fjórum tónum og hrynmynstri: (þögn) stutt, stutt, stutt og langt (G, G, G, Es) - sjá nótur hér að neðan. Mótíf þetta birtist í öllu hljóðfærum, í öllum hugsanlegum tónhvörfum, s.s. beint af augum, afturábak, í spegilmynd, og í spegilmynd afturábak - og nánast í hverjum takti í heilar 7-8 og mínútur - tónflutt út um alla móa. Fimmta er ekki einstök fyrir þær sakir. Hér er hún rétt hefjast. Meira stendur til. Sinfónían var samin 1808.

HinnRaudi1

Heyr og sjá grafíska umritun fyrsta þáttar:

 

 

 

Mozart dó ungur (1756-91). Hann kunni allt. Lokaframlag hans til sinfónískra bókmennta var hin svokallaða Jupíter sinfónía nr. 41 - samin 1788. (Undirritaður tekur ekkert mark á gælunöfnum tónverka; þykist þó vita að Mozart eigi ekki þessa nafngift - heldu þeir sem reyndu að feta í fótspor hans, enda verkið einstakt; stórt í sniðum líkt og reikistjarnan). Og þá beint að efninu: Lokaþáttur sinfóníu 41, sá fjórði af fjórum, er stórbrotin tónsmíð. Þar bregður Mozart sér aftur í gráa forneskju og leikur sér að alkunnu stefjaefni, eða mótífi, líkt og köttur að mús. Köllum mótífið Pange lingua . Hann ákveður að nota bara fjóra tóna af laginu. Það er mönnum hulin ráðgáta hví Mozart gerði þetta. Tónarnir tilheyra „Pange lingua, gloriósi córporis mystérium“. Tómas af Aquino orti. Lagið er ævafornt. Tómas var kannski merkasti heimspekingur miðalda og raunar einn „ . . . af mestu heimspekingum Vesturlanda. Kaþólska kirkjan tók hann í dýrlingatölu og því er oft vísað til hans sem heilags Tómasar“. Hann var á dögum 1225–1274 og því 45 ára aldursmunur á honum og Snorra Sturlusyni. Tómas þessi lét eftir sig rit sem sumir hafa á náttborðinu sínu á 21. öld // Umræddir fjórir tónar eru c, d, f, e; eða Do, re, fa, mí - og eru ritaðir í heilnótum. Strax í upphafi lokaþáttarins eru þær og sagðar fram af I. fiðlum og svo í öllum deildum allt til enda. Mótífið birtast í öllum hugsanlegum tónhvörfum, s.s. beint af augum, afturábak, í spegilmynd, og í spegilmynd afturábak. Mozart fer ekkert dult með þessar tónsmíðakúnstir fremur en Beethoven. Þvert í mót. Hann beinlínis „auglýsir“ þær þegar þær koma fyrir í tónvefnum. 

Listen on Youtube

 

 

 

Annars var Mozart allur svona. Sinfónía nr. 40 (einnig frá 1788) sem allir þekkja er full af þessu (sjá aðalstef 1. þáttar t. a. m.):

HinnRaudi2

Það hlýtur sömu útreið / úrvinnslu og Pange lingua mótíf 41. sinfóníu hans. Fyrstu þrír tónarnir es, d, d (stutt, stutt, langt) eru gerðir að þriggja tóna mótífi sem birtast í öllum hugsanlegum tónhvörfum, s.s. beint af augum, afturábak, í spegilmynd, og í spegilmynd afturábak o.s.frv. Út um alla móa. Þá gætu sumir dregið þá ályktun að Beethoven hafi lært þessar kúnstir af Mozart. En það er ekki svo.

 

 

 

Nákvæmlega einn öld áður en Beethoven samdi fimmtu sinfóníu sína og 80 árum áður Mozart samdi sinfóníur nr. 40 og 41, var á dögum ungur maður sem hét Jóhann Sebastian Bach. Bach dó „gamall“ og blindur (1685-1750). Hann kunni allt. Enda var hann stúderaður af Mozart og Beethoven og öllum hinum - og enn í dag. Kantata hans Christ lag in Todes Banden BWV 4 í e-moll er líklega samin 1708 - og Bach því vart nema 22 ára. Þýskur sálmur er eftir Lúther. Fyrsta vers: Í dauðans böndum Drottinn lá, frá dauða svo vér sleppum, en upp reis dauðum aftur frá, svo eilíft líf vér hreppum. Í Guði því oss gleðjast ber og gjalda þökk og syngja hver af hjarta: Hallelúja. Sjá sálmabók nr. 157. Kantatan byggir á þessum sálmi Lúthers. Lagið er frá miðöldum eður enn eldra. Það veit ekki nokkur maður. Kantata hins bráðunga meistara er í tíu þáttum, að meðtöldum forleika (Sinfóníu) og sálmalaginu, sem rekur lestina ómengað af krúsídúllum og kontrapunkti - svo söfnuðurinn geti tekið undir og allir farið glaður heim. Líkt og Pange lingua mótíf Mozarts er þetta forna sálmalag rauður þráður í BWV 4 allt til enda, þ.e. umvafið tónvef Bachs. Það heyrir hvert mannsbarn sem heyra vill. Að vísu telur undirritaður að drengjaraddir hafi sungið lagið á sínum tíma og Bach því auglýst það rækilega svo allir mættu heyra og njóta. En það gæti verið misminni. Hér annast kvennaraddir flutning þess (sópran) í upphafskórnum. Heyr hvernig hvernig John Eliot Gardiner kallar sálmalagið fram í blábyrjun. Hann sussar á aðrar söngraddir (alt, tenór og bassa). En svo tekur tónvefurinn öll völd þ.e. mótífísk úrvinnsla. Hér eru viðhafðir allir tónsmíðagaldrar Mozarts og Beethovens. Því mætti draga þá ályktun að hinn ungi Bach hafi rutt þessa braut. En það er ekki svo:

 

 

 

• Sinfonia
• Choeur: Christ lag in Todesbanden (sópran)
• Duo: Den Tod niemand zwingen kunnt (tenórar)
• Aria: Jesus Christus, Gottes Sohn
• Choeur: Es war ein wunderlicher Krieg
• Aria: Hier ist das rechte Osterlamm
• Duo: So feiern wir das hohe Fest
• Choral: Wir essen und leben wohl

Josquin des Prez (1440/55-1521) var mikill meistari og kunni allt. Hann samdi kirkjutónlist - þar á meðal messu eina (sennilega 1515) í hefðbundnum fimm þáttum - Kyrie, Gloria, Credo, Sanctus og Agnus Dei. Hún er kenndi við Pange lingua. Tómas af Aquino orti. Lagið er ævafornt. Þetta er sama lag og Mozart byggir á lokaþátt 41. sinfóníu sinnar (sjá hér að ofan). Lagið var í upphafi sungið einraddað (sb. Gregorsöngur) kannski alveg frá 9. öld eða jafnvel fyrr. Mozart nýtir sér aðeins fjóra tóna úr laginu, líkt og áður segir. Þá eru að finna í miðju Kyrie kaflans á orðunum Christi eleison / Kristur miskunna oss (í hljóðritun hér að neðan á 0:50 og áfram). Þeir (tónarnir) eru þar fyrst sungnir af bössum og svo af hverri rödd á fætur annarri líkt og í keðjusöng. Christi eleison þáttur þessi er undurfagur eins og allt annað sem Josquin kom nálægt. Og þá gæti manni dottið í hug að Josquin hafi verið fyrirmynd Bachs, Mozarts og Beethovens. En það er ekki svo. Og til að orðlengja þetta ekki frekar leyfir undirritaður sér að benda á eigin ritsmíð er birtist í Morgunblaðinu - en hún er með fyrstu greinum á þessari heimasíðu og ber yfirskriftina Músík í ljósvaka Mbl. 1. apríl 2014 (sjá bls. 6 eður 7 hér að neðan).Þá loks ættu lesendur að komast að því hvað menn eru fara með þessum dularfullu skrifum í janúar 2015; sb. Pange, lingua, gloriósi Córporis mystérium.

 

 

 

MÚSÍK Í LJÓSVAKA MBL. 1.APRÍL, 2014