2) Greinar um tónlist, viðtöl og sjónvarpsþættir
Heimsóknir
231657

Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.

 island1980-90III

 

Ísland 1980-90 heimsótt á ný - Vopnafjörður

gamlir tónlistarvinir, hljómsveitir og kórar.

Hljóðrit frá þessum árum eru í vörslu RÚV og ekki hlaupið að því að nálgast þau.

Því verður látið duga að hlusta á þau via YouTube

(01.3.2015)

gudmundarstadir

Guðmundarstaðir í Vopnafirði (í dag)

Sinfóníuhljómsveit Íslands. Svo kom að tónleikaferð. Komið við hér og þar - Seyðisfirði, Fáskrúðsfirði, Vopnafirði, Eskifirði, Neskaupstað, Egilsstöðum og Garðabæ. Þó ekki í Breiðdal, sem að sögn sr. Emils er fegurst héraða. Eftirminnilegastar eru glæsisaríur úr Öskubusku / La CenerentolaRossinis (Sigríður Ella Magnúsdóttir) og Inngangur, stef og tilbrigði eftir Rossini (Einar Jóhannesson). Þau Sigríður Ella og Einar eru tómir snillingar // Að auki Mendelssohn Sinfónía Nr. 4

Sinfóníuhljómsveitin hafði ekki áður heimsótt Vopnafjörð að sögn, enda stútfullt félagsheimili og stórbrotnar góðgerðir á eftir á fínu hóteli. Meðal annarra orða - hver var þessi Vopni? Landnámsmaður? Menn muna þetta ekki lengur. Og hvað hét bróðir hans? // Þá var fyrir höndum mikill akstur til Egilsstaða. Góðhjartaður og þakklátur Vopnfirðingur segir við rútubílstjóra. Þið verðið nú að njóta fegurðar hér um slóðir. Komið við á Guðmundarstöðum. Þaðan er víðsýnt. Og þetta að auki: Músíkbændur á Guðmundarstöðum hafa bara ekkert vitað af þessum tónlistarviðburði! Rútubílstjórinn fyldi þessari ábendingu enda Guðmundarstaðir í leiðinni.

Ár og fjallalækir niða á næstu grösum. Söngfugl á garðstaurnum eins og við er að búast. Halarófa gengur niður tröðina til fundar við músíkbræður sem höfðu átt útvarpstæki lengi og harmóníum aukreitis. Þeir hétu Stefán og Sighvatur. Guðað á glugga án árangurs. Næst var hóað útí loftið - í kór. Og viti menn, þeir bræður birtast með hrífu, orf og ljá. Voru í heyönnum í æpandi sól og brakandi þurrki. Óvíst hvað þeir voru að slá í september?! Þeir tóku ekki annað í mál en að bjóða hljómsveitinni í kotið. Þeir höfðu nefnilega hlustað á sinfóníur og svoleiðis í útvarpinu í áratugi // Ekkert bólaði á fóstursystur þeirra - henni Jóhönnu. Hún fór aldrei af bæ og var lítið fyrir fjölmenni. Kannski hélt hún bara áfram að raka í góða veðrinu. Hitt er líklegra, að hún hafi tekið að baka lummur í leyni líkt og hver önnur La Cenerentola.

Einhvur fór að spila fjárlögin og sálma á harmóníum, kannski undirritaður, og Sinfó tók undir, Sigríður Ella og Sigurður Björnsson framkvæmdastjóri. „Kirkjan ómar öll“ ort í Hvítadal. Svona haldið áfram um hríð og þeir bræður harla glaðir. Þá komu lummur, sultutau og þeyttur rjómi upp úr þurru – úr skúmaskoti í bæ // Þeim bræðrum er skyndilega ljóst að með í för er gáfaður og undurfagur fiðluleikari, sem jafnframt er sjónvarpsþula. Ekki nóg með það. Hún er ættuð af næsta bæ. Þó hvorki Þórshöfn né Raufarhöfn – heldur úr Kelduhverfi – bara rétt handan fjalla // Þá leið riðu bændur sem áttu erindi við Húsavík – kannski við Benedikt á Héðinshöfða eða Einar son hans – eða bara kaupmenn. Hvað veit maður um það? // Hitt er víst að Stefán komst ungur til Akureyrar. Kannski sundreið hann Jökulsárósa og áði í Lóni í Kelduhverfi í þjóðbraut // En nú aftur að efninu: Við þessa fregn varð uppi fótur og fit á Guðmundarstöðum.Bræðurnir steingleymdu Sinfó og snéru sér alfarið að þessari konu úr Kelduhverfi sem átti ættir að rekja til Árna Björnssonar tónskálds // Þeir áttu nefnilega líka sjónvarp.

Fólk þakkaði fyrir sig og rölti í rútuna – en ekki sjónvarpsþulan. Hún komst hvergi. Þeir bræður slepptu henni ekki fyrr en seint og um síðir. Þegar hún losnaði úr viðjum og mætti í rútu var klappað. Síðar fréttist eftir krókaleiðum að bændur á Guðmundarstöðum hefðu aldrei verið við konu kenndir. Maður leyfir sér að efast um það – eftir á að hyggja. Hitt er annað, að þau Stefán, Sighvatur og Jóhanna tóku fallega á móti óvæntu innrásarliði og gerðu vel við það. Maður sendi þeim póstkort síðar með þökkum // Eins hitt, að náttúrufegurð Vopnafjarðar er ógleymanleg.

Var að leita að mynd af Guðmundarstöðum á netinu. Rambaði þá á skrif (frá 2012) e. Ómar Ragnarssonar, vin vors og blóma – og andsvör við þeim (!) – og svo svar Ómars - sem er merkilegt. Þar ritar hann um Guðmunarstaði af nærgætni, en staðfestir jafnfram flest það sem sagt er hér að ofan samkvæmt minni undirritaðs frá 1980 og eitthvað. Nálgun Ómars er til fyrirmyndar; hann talar af mikilli virðingu um einstakt fólk. En paradís er ekki til á jörðu ekki einu sinni í firði Vopna. Og – Öskubuska er bara ævintýri!

Ómar Ragnarsson. Á netinu: 
http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1273252/

Rossini: La Cenerentola - Non più mesta. Til Jóhönnu öskubusku að Guðmundarstöðum: Texti: „Ég fæddist einstæðingur og grátklökk. En aðstæður mínar hafa skyndilega breyst.“ Óstjórnlegur gleðisöngur. YouTube: 

Mendelssohn: Sinfónía Nr. 4 

Rossini: Inngangur, Stef og tilbrigði. YouTube: 

 

vopnafjordur

Vopnafjörður í eina tíð