2) Greinar um tónlist, viðtöl og sjónvarpsþættir
Heimsóknir
231513

Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.

Fágæti fyrir Forvitna

Le diable boiteux & Socrate

Halti djöfulinn og Sókrates

(29.3.15)

bruce kramer

Bruce Kramer & Jón Þorsteinsson

Það gekk á ýmsu í París 1927. Satie og fleiri rituðu boðorð til höfuðs Debussy. Þeim lauk á orðunum - Ad Gloriam Tuam. Þau eru í átján liðum. Eitt hljóðar svo. Þú skalt ekki semja syngjanlegar melódíur (ekkert svindl takk). Þar segir líka: Samstígar fimmundir eru bannaðar! Boðorðin eru meinfyndin. Margir rituðu undir plaggið - sennilega flestir með eitthvað í tánni.

Þorkell Sigurbjörnsson sagði eitt sinn í útlöndum: „Það eru alltaf 300 manns á hverjum stað sem eru að leita að óþekktum gullmolum í tónbókmenntum - hvort heldur þeir búa í litlum samfélögum eða milljónaborgum - svona 300 forvitnir“.

Þetta er laukrétt. Á það hefur reynt. Hljómsveit í Rvík stóð fyrir tónleikum og flutti tvö verk sem vart er að finna í helstu tölvumiðlum 21. aldar. Annað er eftir Jean Françaix: Le diable boiteux (1938) - og hitt eftir Eric Satie: Socrate. Og 300 forvitnir og lærdómsfúsir gestir sóttu tónleikana í Rvík. Fullt hús. Það telst ekki til tíðinda þótt kirkja fyllist þegar Jólakonsert Corellis er á dagskrá, Kanon Pachelbels og Árstíðir Vivaldis. En þetta þótti saga til næsta bæjar og kom mönnum í opna skjöldu. Fyrr má nú vera forvitnin.

Einsöngvarar voru þeir Jón Þorsteinsson (tenór) og Bruce Kramer (bass-baritón). Tónlistarsagnfræðingar leggja orð í belg og segja þessi verk vart óperur per se. Það kann að vera rétt - eða hitt - að engum hafi dottið í hug að sviðsetja þau - það best er vitað. Annað eins hefur nú verið sett á svið og þótt harla gott.

Stutt um Sókrates Saties: Byrjum svona. John Cage, annar sérvitringur, sá eitthvað merkilegt við Sókrates og útsetti verkið í frístundum fyrir tvö píanó - fjórhent. Það er í sjálfu sér gæðastimpill, sem allir verða að taka afstöðu til. Annars er hér verið að tala um þriðju útgáfu Saties fyrir kammerhljómsveit (sú fyrsta er frá 1918/1919). Það segir sumum sitthvað - að fyrstu drög verksins skuli hafi orðið til í heimsstyrjöld. Kannski segir það heilmikið (!) ef að er gáð: Einhver sagði Sókrates vera harðneskjulegt verk / kaldhamrað / meinlætalegt / göfugt - en mjög franskt. Um það hefur áhugafólk um 20. öldina deilt fram og aftur // Annar gagnrýnandi sagði: Sókrates er svo einstakt verk að það muni lengi lifa; enda ber það ekki nein einkenni samtíðar sinnar eður 20. aldar. Eiginlega upphafs- og endalaust // Allt eru þetta mjög spennandi hugsanir - kröfuharðar og strangar gagnvart þeim sem eiga vona á venjulegum og grípandi melódíum. Sem vekur spurn: Var Sókrates venjulegur maður og þá ekki síður dauðdagi hans?

Handrit hljómsveitarútsetningar Saties er hvergi að finna - en verkið er enn til í prentaðri útgáfu. Victor Cousin annaðist þýðingu úr Platon og valdi textabrot sem fjalla um Sókrates. Áhöld eru uppruna þessara texta enda komu margir að þeimí fyrndinni. Libretto Cousin er í þremur köflum:

I partie: Portrait de Socrate (Le banquet)
II partie: Bords de I'llissus
III partie: Mort de Socrate

YouTube: Sókrates - hefst á 1:10 mín (að loknum forleik sem er verkinu óviðkomandi)

PS: Nú bar vel í veiði. Undirritaður rambaði á þetta á sjálfri Wikipediu - þýðingu á Socrate a la Victor Cousin - og fleira gómsætt:
Sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/Socrate