2) Greinar um tónlist, viðtöl og sjónvarpsþættir
Heimsóknir
231161

Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.

Hafsjór!

Til Erlings

20.3.2016

erlingur

Erlingur, Jóhannes (kanína) og Renata

Erlingur Gíslason er allur. Synir hans sýndu mér þau elskulegheit að tilkynna mér lát hans símleiðis svo ég frétti það ekki á skotspónum. Við Erlingur vorum vinir. Við vorum nánir vinir. Vinir til hálfrar aldar -  sem útskýrist svo:

Samhliða námi í kennaradeild Tónlistarskólans 1965+ lék maður í Þjóðleikhúskjallaranum á flygil fyrir gesti í hléi. Kaffi og pönnukökur með rjóma og sultu. Á undan og eftir þessu kaffi átti maður greiðan aðgang að efstu svölum og sá sýningar oft og mörgum sinnum - eiginlega endalaus - og þá með Erlingi í stórhlutverkum.

Leikara og ekki síst leikstjórar komu á kaffistofu starfsmanna í kjallarannum eftir sýningar til að gefa enn fleiri „nótur“. Þá var rætt hvað mátti betur fara og öfugt. Fyrir mér voru þetta háskólafyrirlestar í leikhúsfræðum. Sökudólgar fóru að svo búnu snarleiðis á barinn til að drekkja syndum sínum - aðrir heim.

Alltaf var kjallarinn fullur af fólki. Það var undir þessum kringumstæðum að við Erlingur Gíslason tókum tal saman á kaffistofu starfsmanna í kjallaranum Því samtali lauk hálfri öld síðar, sl. miðvikudag.

kanina

Erlingur kanína. Erlingur Gíslason færði Jóhannesi syni okkar Renötu þetta „dýr“ í skírnargjöf. Kanínan á heima í svefnherbergi hans. Kanínan og Jóhannes fara með kvöldbænir - og sofna saman - hér eftir sem hingað til.

Þau Brynja áttu ekki bara leikhús við Laufáveg heldur stórmerkt safn leikrita sem við Erlingur gengum í og hann las fyrir mig. Lék allar rullur. Ógleymanleg forréttindi. Svo útskýrði hann inntak og efnistök. Þetta var engu líkt. Lér konungur - svo eitthvað stórt sé nefnt.

erlingur2

Gleymi aldrei þegar Erlingur söng Fiðlarann á þakinu í leikhúsi þeirra hjóna við Laufásveg. Þá naut hann sín. Maður glamraði með honum. Við vorum bara tveir saman. Syngjum meira! Fleiri söngleiki frá upphafi til enda. Maður varð að hafa sig allan við. Kanntu Kabarett? Kanntu Brecht? Erlingur hafði glæsilega söngrödd og tóneyra á við konsertmeistara.

Erlingur í garði

*

Tinna Gunnlaugsdóttir, fyrrum þjóðleikhústjóri með miklu meiru - lét umsvifalaust í té helstu leikrit og hlutverk Erlings Gíslasonar frá þessum árum. Tinna skrifar:

 

Helstu hlutverk Erlings á þessu tímabili: 

*Hornakórallinn eftir Odd Björnsson / Leif Þórarins ´67 
Erlingur lék Loft 

*Galdra-Loftur ´67 

Erlingur lék Ólaf 

*Putilla bóndi og Matti  eftir B. Brecht 

Erlingur lék Matta 

(Og áfram ad infinitum . . . eftir að undirritaður hélt til náms í útlöndum)

*Brúðuheimilið eftir Ibsen ´74

Erlingur lék Helmer 

*Lúkas eftir Guðmund Steinsson ´75

Erlingur lék Lúkas 

*Silfurtunglið eftir HKL '75 

Erlingur lék Feilan Ó

Erlingur lék líka í fjölmörgum öðrum sýningum, svo sem: Marat / Sade, Sorba, Höfuðsmaðurinn frá Köpernick, Faust, Lýsistrata, Nótt ástmeyjanna, Skugga Sveinn ofl. 

Kærar þakkir Tinna.

*

Dæmigert samtal rétt fyrir andlátið. GE: Erlingur minn, ég ætla bara að vona að þú farir ekki að deyja upp úr þurru. EG: Það kemur þér bara ekkert við. GE: Jú víst. Þegar þú ert allur verður umferðaröngþveiti frá Dómkirkju og alla leið að grafreit Brynju. EG: Og hvað með það? GE: Þá verða kallaðar út svo margar löggur að útsvar mitt hækkar. Reyndu að tóra áfram. Guð geymi þig Erlingur minn. EG: Og þig líka Guðmundur minn.

Á Eyrabakka

Erlingur kunni að meta kaldhæðni umfram flesta. En hann beitti henni aldrei gagnvart mér. Tómt ljúfmenni, elskulegt, hógvært með óstjórnlega kímnigáfu til hinsta dags. Ég kallaði hann alltaf skáldið við Laufásveg og þóttist vera sonur hans í fjarveru pabba míns. Stundum var símávarpið því „faðir vor“. Ert það þú Guðmundur minn? Heill og sæll . . .

*

Ítarefni

Samvinna okkar Erlings - tvö dæmi af mörgum:

Eldskírnin

http://gudmunduremilsson.is/index.php/328-eldskirnin

Beethoven-tónleikar. Heyr lokasprett Erlings á 01:53:36

https://soundcloud.com/user911478883/shapiro-vinland

PS: Gagnrýnandi New York Times sagðist hafa þurft að draga fram landakort af þessu tilefni, enda tónskáldið frá Brown University, stjórnandi og sögumaður frá Íslandi og hljómsveitin frá Lettlandi.