Beethoven Tónleikar (2KLST): https://www.youtube.com/watch?v=P6EdMgtOqIo
Sjá einnig: https://soundcloud.com/user911478883/tracks (dæmi um hljóðrit GE)
Höfundaréttur © Guðmundur Emilsson. Allur réttur áskilinn samkvæmt Bernarsáttmálanum, með viðaukum.
Menntastofnunum er heimilt að nota þessa síðu sé eigenda höfundarréttar getið.
30.000
Sæll kæri vinur.
Ekki óraði fyrir mér þegar þú hafðir samband við D&G árið 2013, til að fá þá til þess að taka þátt í léttu aprílgabbi að við stæðum uppi með heimasíðu fulla af upplýsingum og fróðleik um íslenska tónlistarsögu. Það var frábær ákvörðun hjá þér að fá þér heimasíðu og fá mig til þess að aðstoða þig við að koma mörgum af þínum miklu og veglegu verkum á veraldarvefinn, enda mikilvægt að þetta glatist ekki fyrir framtíðina. Samt sem áður datt mér ekki í hug að tæpum 4 árum seinna væri búið að skoða síðuna 30þ sinnum. Til hamingju með þennan áfanga kæri vinur og það var klárlega þörf fyrir þessa síðu. Hér fyrir neðan má líta á verkið sem kom þessu öllu af stað.
Kær kveðja
Jón Steindór Þorsteinsson
*
A+B=0
Hér á eftir fara brot úr ritgerð um músíkvísindi sem ég reit fyrir nokkrum árum. Hún fór að
vísu beint í „hjartaskúffuna"; mig skorti kjark til að birta hana. Læt það nú eftir mér. Vil þó
fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum – til skilningsauka. Vel glefsur úr ritgerðinni og
útskýri þær. Ritgerðin er tileinkuð Hrabal, Kafka, Erasmus, Cervantes, Voltaire og Mólíér, og
ekki síst trúnaðarvini hans – mesta stjórnmálaskörungi sögunnar – Alceste Le comte de
Misanthrope; og öðru fágætisfólki sem uppfræddi mig.
Forsendur: Fljótt fennir í spor mikilhæfra manna. Það er ekkert nýtt undir sólinni. Í ljósi
þessara fornu sanninda leyfi ég mér að koma eftirfarandi á framfæri um sögu mannkyns og
eiginlega sögu alls:
Tilgáta: Það hefur enginn fundið upp neitt!
Músíksaga mannkyns, svo langt sem hún nær, er örstutt miðað við annað. Óþarft er að taka
fram að með orðinu „músík" er átt við alla kunna þekkingu, eins og hún hefur „þróast" frá því
sögur hófust kl. 23:59. Þar í er stjörnufræði, stærðfræði, svokölluð „tónlist", heimspeki,
læknisfræði, stjórnmálafræði, ritlist, rökræðulist og ekki síst guðfræði – og fleira áhugavert
sem í öndverðu laut yfirráðum lista- og menntagyðja. Sögusvið ritgerðinnar takmarkast við sl.
6000 ár í fyrstu. Síðar yfirfæri ég kenninguna á sögu alheimsins, til 14 milljarða ára plús. Allt
ber að sama brunni. Útkoman er alltaf: A+B=0.
Það var einmitt við lestur ns í músíksögunni sem mér varð spurn. Við það komst ég á sporið.
[Í raunvísindum er ns notað til þess að tákna 10-9 hluta einhvers (0,000000001 hluti). Þannig
er talað um nanósekúndur, 1 ns = 10-9 s og nanómetra, 1 nm = 10-9 m]:
Sagt var að Arnold Schönberg hefði fundið upp svokallaða tólftóna músík. Ég leitaði víða
fanga í áratugi enda alltaf verið á hamra á þessu, á öllum mögulegum tungum. Í stuttu máli:
Schönberg fann ekki upp neitt. Mýgrútur músíkmanna hefur fiskað á þessum slóðum í
aldaraðir ef ekki frá upphafi vega. Fólk á næstu bæjum. Jafnvel tengdasonurinn Zemlinsky.
Schönberg sagði um skrif hans: Þau geta bara beðið. Svo fór fólk að segja að Arnold hefði
frelsað tónana og opnað nýjar leiðir – allri músík til hagsbóta á 20. öld og þeirra 21. Einskonar
Messsías.
Cervantes de la Mancha (1547-1616) sagði í formála að glæstu fræðiriti: Ég hef efni á að
segja þetta af því ég hef lesið allt! Ég held að ég hafi líka efni á að segja þetta um Schönberg.
Ég hef lagt mig eftir tónlist hans frá blautu barnsbeini. Hef leikið píanóverk hans og analíserað
nótu fyrir nótu, t.d. opus 11, op. 19 og op. 33A; stjórnað hljóðfæra- „söng" og
hljómsveitarverkum hans og lesið fræðirit hans upp í naglabönd. Reyndar alltaf þótt
hugarfóstur Arnolds fremur leiðinleg, ekki síst hin síðari, sem er bara mitt mat. Svo lagði ég á
mig fjögurra ára fjallabaksleið, um Kjöl og Kaldadal, bjó í bókasafni af fróðleiksást, til að
læra Heinrich Schenker-analísu og Set-analísu og annað, sem er helber stærðfræði úr
Princeton, Brown, Harvard, Yale – og ekki síst Germaníu – eftir Milton Byron Babbitt,
George Perle og Allen Forte og fleiri og fleiri, og greindi með þessum öflugu
músíkvinnuvélum stórvirki eftir Krzysztof Eugeniusz Penderecki (tónsmíð frá 1965-6). Þar
útskýrði ég tilurð allra tóna verksins frá a til ö. Það tók mig mörg ár að auki – og 300
blaðsíður. Niðurstaðan var sú sama og í dæminu um Schönberg. Penderecki fann ekki upp
neitt. Allir héldu það og Penderecki líka – í fyrstu. Hann sagði mér sjálfur. Jafnvel elskulegur
fyrsti tónfræðikennari minn í Tónlistarskólanum, Jón Þórarinsson, og forveri á
Morgunblaðinu, lét blekkjast er hann heyrði Lúkasarpassíu Pendereckis í Kaupmannahöfn og
skrifaði lofgreinar þar um. Að auki sá hann til þess að þota full af pólsku tónlistarfólki flaug
yfir járntjaldið og mætti á Listahátíð (sjá Mbl., júní 1988) og flutti Lúkas undir stjórn
höfundar. Mikið klapp og uppistand í Háskólabíói og á Bessastöðum.
Þetta virtust í fyrstu vonbrigði allra, ekki síst mín. En áratuga rannsóknarstörf leiddu mig nú í
framandi heima - líkt og Virgil leiddi Dante forðum.
En sum sé, Penderecki og Schönberg fundu ekki upp neitt. Réttara væri að segja að Carlo
Gesualdo (1566-1613) hafi „frelsað" tónana, eða J.S. Bach (1685-1750), eða Chopin (1810-
1849), eða Franz Liszt (1811-1886), eða Richard Wagner á köflum (1813-1883), Alexander
Scriabin (1872-1915) ad infinitum. Og þá er ekki minnst á Ives, Stravinsky, Messiaen og
Debussy. Ver ekki frekara púðri í Schönberg æsku minnar og Penderecki vin minn og
velgjörðarmann – dobroczynca – að sinni. Og þó. Hafi Schönberg hneppt tónana í vinnubúðir,
þá kom það í hlut Pólverjans Pendereckis að veita þeim frelsi. Það er A+B=0.
Þetta voru nú bara tvær vísindalegar rannsóknir. En nú færum við okkur brátt á músíkslóðir
sem almennir lesendur Morgunblaðsins hafa flestir komið á. Biblían leikur stórt hlutverk enda
þekkjum við hana; hún er samnefnari kynslóðanna. Sá sem ekki tekur afstöðu til fjölmargra
rita hennar telst vart músíkmaður (kannski ólæs?). Þeir hafa allir gert það – líka Einstein.
Spurningin er: Hver fann upp hvað – ef nokkuð? En fyrst þetta.
Völd og músík hafa alltaf átt samleið enda eitt og hið sama. Það skoffín hefur hvorki skolt né
skott. Eiginlegur hringormur. Enginn veit hvar kvikindið byrjar og hvar það endar. Stjórnmál
(sem eru líka músík) snúast (!) bókstaflega um völd. Þau hafa alltaf þrifist á fjármagni.
Yfirleitt illa fengnu. Í þrælahaldi, yfirgangi og vopnaskaki. Aðrir músíkmenn hafa neyðst til
að ala manninn í þessu umhverfi í þúsaldir; hafa verið látnir tóra, eins og skylmingaþrælar,
svo þeir geti skreytt hirðlíf þegar mikið liggur við; enda margir staðnir að skreytni (þögn eða
ósannsögli) til að halda lífi. Kópernikus (1473-1543), sem reit De revolutionibus orbium
coelestium, var skreytinn í þessum skilningi og þagði þunnu hljóði. Reyndar voru það
liðsmenn Lúthers (1483-1546) sem gengu í skrokk á honum. Galileo Galilei (1564-1642) hinn
blindi og fangelsaði þagði líka. Páfinn gekk í skrokk á honum. Galileo sagði vini í trúnaði:
„Biblían vísar leiðina til himna – þó það (innskot höf.) – en ekki hvernig himnarnir snúast!"
Nú vita það allir.
Músíkmenn þykja bestir dauðir. Það hefði liðið yfir pokaprestinn Hallgrím hefði hann séð
kirkjuna á Skólavörðuhæð í lifanda lífi. Enda fann hann hvorki upp passíu né passíusálma.
Músíkmenn höfðu skrifað bæði ljóð, lög og heimspekirit þar um í aldaraðir. Jafnvel 4000 fyrir
Krist (spámenn) og 2000 ár eftir Krist (hinir og þessir). Alls í 6000 ár plús. Og enginn veit
hvert þeir sóttu vísdóm sinn. Það hefur fennt í spor þeirra eða sólbráð afmáð þau. Dæmi:
Ástsælasta tónverk kristinna manna nefnist Messías (samið 1742). Þar í er rekin saga í þremur
hlutum sem fjallar um höfuðpersónuna frá vöggu til grafar, einnig píslargönguna (sb. passía).
Jennens er skráður höfundur söngtextans. Það er bara ekki rétt. Textinn er allur sóttur í
skræður sem voru ritaðar af vitringum þúsundum ára fyrir Anno Domini 0. Enginn veit
hvernig þeir sáu þetta fyrir.
Að svo mæltu hefst sönnunarfærsla á – eða sýnataka vegna – tilgátu um að enginn hafi fundið
upp neitt; að allt sé 0. Byrjum á dæmi sem allir þekkja. Everest. Sagt er að Hillary og Tenzing
(eða öfugt) hafi fyrstir manna klifið Sagarmatha eða Chomolungma eða Móður jörð eða Helgafell.
Það er ekki rétt. Þeir eiga sér nafngreinda vestræna forvera sem fórust á niðurleið –fjölmarga.
Sherpar og helgir menn – í Fannalandi tákna og töfra – klifu fjallið í aldaraðir til þess að mega
deyja í faðmi Móður jarðar eða til að reisa þar bænadulu. Það hefur bókstaflega fennt í spor
þeirra mikilhæfu manna. Tenzing og Hillary (A) urðu ekki fyrstir til, helgir menn ekki heldur (B).
Það var enginn fyrstur (0) enda ekkert nýtt undir sólinni. Tökum fleiri sýni. Lesendur geta fengist
við að stilla þeim upp í jöfnur ef vill. Og nú skrifaði ég í belg og biðu.
Hvor var fyrri til – Darwin eða Huxley og hver var forveri þeirra? Hvor var fyrri til –
Jóhannes skírari eða Jesús, sb. samtal þeirra í ánni Jórdan og skírn Jesú (Matthías 3:13-17)?
Eða voru það kannski Essenar sem voru fyrstir í þessu tilfelli, og ef svo, hver kenndi þeim í
árþúsundir? Þeir áttu safn bóka úr höfuðáttum og földu þær í leirkrúsum við Dauðahaf þegar
að þeim var sótt. Fundust á árunum 1946-56. Hver skrifaði þær bækur? Indverjar? Arabar?
Persar? Egyptar? Eþíópíumenn? Menn í Súdan? Hver fann Ísland? Norrænir menn eða inúítar
sem sigldu eða fuku yfir Grænlandssund? Engar sögur fara af þeim. Fennti í spor þeirra hér?
Lokuðu þeir hringnum umhverfis jörðina eða var það Drake, Magellan eða Jón Indíafari?
Hver fann upp afstraktlist? Ekki Picasso og félagar. Hellisbúar? Hver fann nýja heiminn? Var
það Bjarni Herjólfsson eða Leifur Eiríksson, eða fólk sem gekk þurrum fótum yfir
Beringssund, eða Columbus – eða sigldi fólk á reyrbátum frá Afríku áður en sögur hófust?
Hver fann upp Walkabout? Elizabeth II eða frumbyggjar Ástralíu? Hver fann upp
prentlistina? Gutenberg eða Kínverjar og hver kenndi þeim? Fann Marteinn Lúther upp
gyðingahatur (sjá skrif hans) eða var óumburðarlyndi í þeirra garð þekkt frá upphafi vega?
Hvert orti Davíðsálma, Davíð eða mýgrútur óþekktra músíkmanna, svokallaðra skálda? Hver
samdi Gregorsöng, páfinn eða mýgrútur óþekktra músíkmanna – svokallaðra tónskálda? Hver
fann upp kvintsönginn – organum / fjölröddun? Markaði útkoma séra Arngríms með organum
tímamót í músíksögu Íslands? Eða voru það rit Anons IV (atkvæðamikill á 13. öld) eða skrif
Johns Cottons á 12. öld (Johannes Afflighemensis: De musica), eða skrif Lénonins og
Pérotins (Magnus Liber Organum) í Notre Dame (uppi 1160-1250); eða hugsanir Pýþagórasar
(570-495 f.Kr +/-); sem þótti svo vænt um hina fullkomnu fimmund (og hlutfallið 3/2)? Hver
flaug fyrstur manna, Wilbur, Orville (eða öfugt) eða Íkarus, og hver kenndi þeim? Steinrunnar
og fiðraðar risaeðlur? Hver samdi sæluboðorðin og fjallræðuna. Það var ekki Jesú - hver
kenndi honum þau? Ekki voru það Grikkir. Og ekki Rómverjar. Þeir komu lítt við
trúarbragðasögu Hebrea á fyrri öldum (f.Kr). Hvar var Jesú við nám í tuttugu þögul ár? Hver
kenndi Boethiusi (480-525 e.Kr.) - hinum líflátna -músík? Eða safnaði hann bara fróðleik úr
öllum áttum líkt og Essenar, Davíð og Gregor? Loks í léttu hjali: Af hverju vísítera bréfberar
alltaf tvisvar!? Og svona áfram frá upphafi til enda og frá enda til upphafs. Enda er einn dagur
sem þúsund ár og þúsund ár dagur ei meir = 0.
Í ritgerð minni segir að A+B=0. Núll? Það er ekki rétt. Margir hafi eflaust lesið jöfnuna
þannig. Núll er hringur í þessu tilfelli: ○ Hringur hefur hvorki upphaf né niðurlag. Forfeður
vorir sáu fyrir sér heimsmynd þar sem snákur beit í dyndil sinn. Sú heimsmynd gerir ráð fyrir
upphafi og endi, skolti og skotti. Heimsmynd sem er hringur ○ er ævarandi, hefur ekkert
upphaf og tekur aldrei enda; er baugur, vetrarbraut í vetrarbrautum – þar til gríðarlegt,
hringlaga svarthol birtist á þessari sporbraut
●
og gleypir allt í sig – og hverfist loks í agnarsmátt mengi jötunkrafta:
„●"
Svo kemur mikill hvellur og kliður og allt þenst út. Hringurinn fer að snúast og allt verður
sem nýtt; endurfæðist undir dagstjörnu; „Everest" klifið á ný - og svona aftur og aftur og
endalaust. Í ljósi þessa alls leyfi ég mér að koma á framfæri heimsmynd – eins og áður sagði -
sem talar sínu máli en er þó háð takmarkalausri endurnýjun – því allt er í alheiminum
breytingum undirorpið: Hringur er að því leyti einstakt fyrirbæri að „lesa" má hann áfram (P)
og afturábak (R), í spegilmynd (I) og spegilmynd afturábak (RI). Útkoman er alltaf sú sama.
Að auki er hringur fyrirbrigði í fjórvídd – augljóslega - hvorki lóðréttur (Dante), né láréttur
(Snorri). Vísindamenn segja okkur að „. . . fjórvíð kúla með radíus r og miðju í einhverjum
punkti p (sé) skilgreind sem safn þeirra punkta sem eru í minni fjarlægð en r frá punktinum p .
. . "
Eða: ○ (P) + ○ (R) + ○ (I) + ○ (RI) = ○
A+B=○
Baia di vapore, aprile AD 2014. Donum Dei, Lékař hudby
Hugleiðingar Árna Tómasar Ragnarssonar og Gerald
Shapiro, birtast í heild á vefnum www.dgnet.is/visindaritgerd/